Ísland fær ekki fleiri sæti í Ríó
Málefni Rússlands vegna Ólympíumóts fatlaðra í Ríó hafa verið í brennidepli undanfarnar vikur. Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) meinaði á dögunum öllum rússneskum íþróttamönnum þátttöku í Paralympics í Ríó sökum svæsinna lyfjamisferlismála í Rússlandi sem teygja anga sína upp í efstu lög stjórnsýslunnar þar í landi.
Alþjóðlegi íþróttadómstóllinn (CAS, Court of Arbitration) hafnaði svo nýverið áfrýjun Rússlands um að hneppa ákvörðun IPC í málinu. Það hefur því endanlega verið staðfest að Rússland taki ekki þátt í Paralympics sem hefjast 7. september næstkomandi í Brasilíu.
Tæplega 270 sæti íþróttamanna losna fyrir vikið en IPC hefur ekki enn gefið út nein opinber samkskipti um hvernig rússnesku sætunum verði úthlutað.
Íþróttasamband fatlaðra hefur þó fengið staðfest að svokölluðum boðssætum (Bipartite application) verði ekki boðin þátttaka í leikunum þrátt fyrir fjarveru Rússa.
Ísland sótti um alls fjögur boðssæti fyrir íþróttamenn sem ekki náðu tilskyldum lágmörkum en þau voru Arnar Helgi Lárusson - hjólastólakappakstur, Hulda Sigurjónsdóttir - kúluvarp, Már Gunnarsson - sund og Arna Sigríður Albertsdóttir - handahjólreiðar.
Þá er ljóst að íslenski Paralympic-hópurinn verður aðeins skipaður þeim íþróttamönnum sem ÍF hefur þegar kynnt til sögunnar en þeir eru:
Helgi Sveinsson - frjálsar (spjótkast)
Þorsteinn Halldórsson - bogfimi
Jón Margeir Sverrisson - sund
Sonja Sigurðardóttir - sund
Thelma Björg Björnsdóttir - sund