Jón Margeir Sverrisson sundmaður úr Fjölni setti í kvöld nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 100m bringusundi S14 (þroskahamlaðir) þegar hann varð sjötti í greininni á Evrópumeistaramóti fatlaðra í Portúgal. Jón sem bætti metið einnig í undanrásum í dag synti í kvöld á tímanum 1:10,84 mín.
Fyrir bringusundskeppnina í dag var Íslandsmet Jóns í greininni frá árinu 2014 og stóð þá í 1:13.81mín. Í undanrásum bætti Jón metið í morgun er hann synti á 1:12.20mín. en í kvöld kom hann í bakkann eins og áður greinir á 1:10.84mín, mögnuð bæting á metinu. Það var svo Bretinn Scott Quinn sem vann gullið á 1:07,29mín.
Þá varð Thelma Björg Björnsdóttir sjöunda í úrslitum í kvöld í 100m bringusundi SB5 en hún hjó þar nærri Íslandsmeti sínu á tímanum 1:57,70mín. en metið hennar er 1:57,10mín.
Mynd/ Jón Margeir í Funchal í Portúgal þar sem hann tvíbætti Íslandsmetið í 100m bringusundi S14 í dag.