Evrópumeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum fer fram í Grosseto á Ítalíu dagana 10.-16. júní næstkomandi. Ísland sendir fjóra keppendur á mótið en þeir eru:
Helgi Sveinsson – Ármann - flokkur F42
Arnar Helgi Lárusson – UMFN - flokkur T53
Stefanía Daney Guðmundsdóttir – Eik - flokkur F/T 20
Hulda Sigurjónsdóttir – Suðri - flokkur F 20
Helgi Sveinsson er ríkjandi Evrópumeistari í spjótkasti frá Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Swansea sumarið 2014 og núverandi bronsverðlaunahafi frá HM sem fram fór í Doha í Katar seint á árinu 2015. Helgi hefur stimplað sig rækilega inn sem einn af allra fremstu spjótkösturum heims í röðum fatlaðra með sjötta lengsta heimsmet sögunnar!
Ríkjandi heimsmet Helga í greininni er 57,36 metrar en lengast kast sögunnar í spjótkasti fatlaðra á Króatinn Branimir Budetic með kast upp á 65,72 metra en sá keppir í flokki sjónskertra F 13.
Arnar Helgi Lárusson er eini hjólastólakappakstursmaður landsins og hefur verið iðinn við kolann frá árinu 2012 en sumarið 2014 vann hann til bronsverðlauna í 200m keppni á Evrópumeistaramótinu í Swansea. Það eru einu verðlaun Arnars á stórmóti og þykir gríðarlegur árangur í ljósi stutts ferils Arnars í íþróttinni.
Stefanía Daney Guðmundsdóttir og Hulda Sigurjónsdóttir keppa báðar í flokki þroskahamlaðra kvenna, Hulda er margfaldur Íslandsmethafi í kúluvarpi F20 kvenna en Stefanía á bæði Íslandsmetin í 400m hlaupi og langstökki F20 kvenna.
EM í Grosseto verður síðasta stórmótið sem íslensku keppendunum stendur til boða áður en haldið verður til Río de Janeiro í Brasilíu í septembermánuði þessa árs þar sem Paralympics fara fram. Senn styttist í að Ríó hópurinn verður kynntur til leiks og verður fróðlegt að sjá hvaða einstaklingar verði fulltrúar Íslands í Ríó þegar Paralympics munu fara þar fram í fyrsta sinn í sögunni!
Mynd/ Helgi Sveinsson er efsti maður á heimslista í spjótkasti F42.