Hvað eru Paralympics?



Árið 2016 er Ólympíuár og að sama skapi er árið Paralympicsár. Í íþróttum fatlaðra er hugtakið Paralympics þekkt en almennt hefur það, eins og gefur að skilja, ekki náð jafn víðtækri útbreiðslu og sjálfir Ólympíuleikarnir. Orðið Para kemur úr grísku og þýðir „við hlið“ eða „nærri“ og því Para-lympics ætlað til að lýsa leikum sem eru á borð við Ólympíuleika.

Í fljótu bragði og á afar einfaldan hátt er hægt að segja að Paralympics séu Ólympíuleikar fatlaðra afreksmanna. Aðeins nafngiftin er önnur af augljósum ástæðum, Ólympíuleikar eru heimsþekkt vörumerki og fötluðum því uppálagt að markaðssetja sína eigin leika undir afninu Paralympics.

Paralympics er sem sagt Ólympíumót fatlaðra og fara alltaf fram í sama landi, í sömu mannvirkjum og notast er við sama Ólympíuþorp og á Ólympíuleikunum sjálfum. Paralympics hefjast oftast um hálfum mánuði á eftir Ólympíuleikunum.

Þegar þjóðlönd sækja um að halda Ólympíuleika eru þau jafnframt að sækja um að halda Paralympics. Sótt er um bæði verkefnin og samlegðaráhrifum náð fram með um það bil mánaðarlangri samfelldri íþróttahátíð sem hefst með Ólympíuleikunum og lýkur með Paralympics.

Þetta árið fara Ólympíuleikarnir og Paralympics fram í Ríó de Janeiro í Brasilíu. Ólympíuleikarnir fara fram 5.-21. ágúst en Paralympics fara fram 7.-18. september. Íþróttagreinarnar sem boðið er uppá á Paralympics eru margar þær sömu og á Ólympíuleikunum, með undantekningum þó.

Greinarnar sem í boði verða á Paralympics 2016: Bogfimi, frjálsar, boccia, kanóróður, hjólreiðar (braut og vegur), hestaíþróttir, 5 manna knattspyrna, 7 manna knattspyrna, blindrabolti, júdó, lyftingar, róður, siglingar, skotfimi, sund, borðtennis, þríþraut, sitjandi blak, hjólastólakörfuknattleikur, hjólastólatennis, hjólastólaskylmingar og hjólastólaruðningur.

Á Paralympics eru ekki jafn margir keppendur og á Ólympíuleikunum. Er þar helst að nefna að iðkendur úr röðum fatlaðra þurfa margir hverjir sérstaka aðstoðarmenn eins og t.d. einn blindur sundmaður þarf aðstoðarmann/þjálfara á báðum endum sundlaugarinnar til þess að „tappa“ eða banka í og láta vita hvenær sundmaður er að nálgast bakkann. Svona er þetta í fjölmörgum greinum og því viðbúið að á Paralympics séu mun fleiri aðstoðarmenn á meðal íþróttamanna heldur en nokkurntíman á Ólympíuleikunum. Í ár verða um 4000 íþróttamenn sem fá keppnisrétt á Paralympics en þeir eru um helmingi fleiri á Ólympíuleikunum.

Á Paralympics keppa eingöngu fatlaðir íþróttamenn og koma þeir úr hópi þroskahamlaðra, hreyfihamlaðra og sjónskertra/blindra. Ísland hefur tekið þátt í Paralympics allt frá árinu 1980 og hafa fatlaðir íslenskir afreksmenn unnið til 97 verðlauna og þar af 36 gullverðlauna. Síðasti maður sem fór á pall á Paralympics fyrir Íslands hönd var Jón Margeir Sverrisson í London 2012 þegar hann varð Paralympic-meistari í 200m skriðsundi þroskahamlaðra. Þar setti Jón Margeir nýtt heims- og Evrópumet sem og Paralympic-met.

Nokkrar staðreyndir:

*Fyrstu Paralympics fóru fram í Róm á Ítalíu árið 1960 þar sem 400 íþróttamenn frá 23 löndum tóku þátt.
*Fyrstu Winter Paralympics fóru fram árið 1976 í Örnsköldsvik í Svíþjóð.
*Frá Ólympíuleikunum í Kóreu 1988 og Vetrarólympíuleikunum í Albertville í Frakklandi 1992 hafa Paralympics allar götur síðan farið fram að loknum Ólympíuleikum á sama stað, við sömu aðstæður og jafnan verið um 2-3 vikur á milli verkefnanna.

Nánar um uppruna Paralympics hér

Hér má svo líta á veglegt samantektarmyndband frá Paralympics í London 2012 sem jafnan hafa verið kallaðir „The greates Paralympics ever“