Þrír keppendur stóðu sig vel á Pre Games



Ásdís Ásgeirsdóttir, Stefán Páll Skarphéðinsson og Védís Harðardóttir hafa nú lokið keppni í listhlaupi á skautum á Pre Games í Austurríki og öll stóðu þau sig mjög vel.  Keppni er eins og á öðrum Special Olympics leikum byggð upp þannig að allir keppa við sína jafningja. Keppendur sýna annars vegar skylduæfingar og hins vegar frjálst prógramm.  Samanlagður árangur gildir til úrslita og þegar stig höfðu verið reiknuð út var staðan sú að 
Ásdís var í  4.sæti, Stefán í 3.sæti og Védís í 3.sæti. 

Á leikunum var keppt í ýmsum greinum vetraríþrótta og Ísland mun vonandi í framtíðinni eiga fulltrúa í fleiri greinum.
Ferðin gekk vel og keppendur og þjálfarar  komu hamingjusamir heim eftir velheppnaða ferð. Til hamingju öll.

Pre Games hjá Special Olympics eru undirbúningsverkefni fyrir alþjóða vetrarleika Special Olympics 2017 en vetrarleikarnir fara fram í Austurríki. Nokkrum þjóðum er boðið á Pre Games sem liður í undirbúningi mótshaldara fyrir stóru leikana.

Með hópnum í för ytra voru þær Helga Kristín Olsen og Sólveig Dröfn þjálfarar hjá skautadeild Aspar.