Fjarðarliðinn Róbert Ísak Jónsson hafði í dag sigur á Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga en þetta var í áttunda sinn sem sundmaður frá Íþróttafélaginu Firði vinnur til Sjómannabikarsins sem Sigmar Ólason sjómaður frá Reyðarfirði gaf til mótsins. Róbert Ísak syndir í flokki þroskahamlaðra (S14) og átti stigahæsta sund mótsins með 590 stig fyrir 50m flugsund en Sjómannabikarinn er jafnan afhentur þeim sundmanni sem á stigahæsta sund mótsins.
Róbert synti 50m flugsund á 30,60 sekúndum en hörð keppni var gerð að Sjómannabikarnum þetta árið þar sem þau Björn Axel Agnarsson, ÍFR, Már Gunnarsson, Nes og Þórey Ísafold Magnúsdóttir, ÍFR, gerðu einnig harða atlögu að bikarnum eftirsótta.
Hr. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var heiðursgestur mótsins og afhenti Róberti Sjómannabikarinn í mótslok en Nýárssundmót ÍF fór nú fram í þrítugasta og þriðja sinn.
Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til starfsmanna mótsins og allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við að setja sterka umgjörð utan um verkefnið sem tókst vel til í alla staði.
Gleðilegt nýtt ár.
Mynd/ Róbert Ísak handhafi Sjómannabikarsins 2016.