Kristín með tvö Evrópumet á Ítalíu


Down Syndrome International Open European Swimming Championships

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir frá Ívari á Ísafirði er um þessar mundir stödd á Ítalíu þar sem Evrópumeistaramót DSISO fer fram en DSISO eru alþjóðleg sundsamtök einstaklinga með Downsheilkenni. Kristín hefur þegar sett tvö ný og glæsileg Evrópumet á mótinu.

Á fyrsta keppnisdegi síðastliðinn sunnudag setti Kristín nýtt Evrópumet í 25m skriðsundi þegar hún keppti í undanrásum en um persónulega bætingu var einnig að ræða og besta tímann inn í úrslitin. Í úrslitum bætti hún Evrópumetið að nýju og tryggði sér gullverðlaunin í 25m skriðsundi.

Í gær kom svo annað Evrópumet þegar Kristín tryggði sér annað gull í 25m baksundi. Þá keppti hún einnig í 50m baksundi og hafnaði í 3. sæti.

Hægt er að fylgjast með framvindu Kristínar á Ítalíu á Facebook-síðunni „Sundkonan Kristín“