Þann 31. október síðastliðinn stóð Íþróttasamband fatlaðra að Paralympic-deginum í fyrsta sinn. Um var að ræða stórskemmtilega kynningu á íþróttum fatlaðra á Íslandi. Íþróttanefndir ÍF, aðildarfélög ÍF og nokkrir af hagsmunahópum fatlaðra sem og samstarfsaðilar ÍF komu að kynningunni. ÍF vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem gerðu daginn einkar vel úr garði og afar eftirminnilegan.
Íþróttanefndir ÍF kynntu sínar greinar ásamt aðildarfélögum en gestir gátu skoðað bogfimi, borðtennis, lyftingar, hjólastólakörfuknattleik, knattspyrnu, Snag-golf, frjálsar, Jap-braut, fimleika og boccia. Þá fá íþróttamennirnir Arna Sigríður Albertsdóttir, handahjólreiðar, og Pálmi Guðlaugsson, þríþraut, sérstakar þakkir fyrir sitt framlag en þau kynntu greinar sínar og þann búnað sem notaður er til iðkunarinnar en umtalsverð gróska og nýliðun er í íþróttastarfi fatlaðra um þessar mundir og fjölbreytnin vex með degi hverjum.
Ingó veðurguð stýrði deginum af röggsemi en verð að játa sig sigraðan í kúluvarpi gegn Suðra-sleggjunni Huldu Sigurjónsdóttur en vel fór á með þeim vinum. Ingó hvatti gesti til að keppa gegn sér í hinum ýmsu greinum og að sjálfsögðu tók hann lagið.
Góður rómur var gerður að deginum og ljóst að hér eftir verður um árlegan viðburð að ræða.
Karl West Karlsson tók saman veglegt myndband frá deginum: