Arnar Helgi lauk keppni í Doha með nýju Íslandsmeti


Arnar Helgi Lárusson hefur nú lokið keppni á heimsmeistaramóti fatlaðra í frjálsum en í morgun keppti hann í 400m hjólastólakappakstri. Arnar Helgi setti nýtt Íslandsmet í greininni þegar hann kom í mark 1.05.77 mín.

Ríkjandi Íslandsmet Arnars í greininni fyrir keppnina í Doha var 1.06.68 mín. Af þessu er ljóst að Arnar náði ekki að tryggja sér þátttökurétt í Ríó með þátttöku sinni í HM en það er fjarri því öll von úti enn og ljóst að það verður nóg að gera hjá Arnari næstu mánuði við að berjast fyrir þátttökunni á Paralympics.

Riðlarnir í morgun voru þrír í keppni Arnars en síðasti tíminn inn í úrslit var 53,48 sek.

Ísland lýkur þátttöku sinni í mótinu á fimmtudag þegar Helgi Sveinsson keppir í spjótkasti. Helgi mun þá keppa í þriggja flokka keppni þar sem F42,43 og 44 hafa verið settir saman í eina keppni og þannig verður fyrirkomulaginu háttað á Paralympics í Ríó.

Mynd/ Stefán Þór Borgþórsson - Arnar Helgi Lárusson, UMFN, hefur lokið þátttöku í Doha.