HM fararnir komnir áleiðis til Doha



Heimsmeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum fer fram í Doha í Katar dagana 21.-31. október næstkomandi. Ísland á tvo fulltrúa á mótinu en það eru þeir Helgi Sveinsson, Ármann, og Arnar Helgi Lárusson, UMFN. Íslenski hópurinn hélt utan í morgun en með þeim Arnari og Helga í för er landsliðsþjálfarinn Kári Jónsson og honum til aðstoðar er Ásmundur Jónsson, nuddari. Kapparnir verða komnir á endastöð í nótt og svo hefst fjörið innan tíðar.

Allt mótið verður í beinni útsendingu á netinu en nálgast má útsendingarnar hér.

Arnar Helgi keppir í hjólastólakappakstri í flokki T53 - dagskrá Arnars á mótinu:

22. október, 100m race

25. október, 200m race

27. október, 400m race

Helgi keppir í spjótkasti en hann er ríkjandi heims- og Evrópumeistari í greininni í flokki F42. Að þessu sinni munu F42,43 og 44 keppa saman í Doha og verður fróðlegt að fylgjast með gengi Helga en hann er í raun að keppa upp fyrir sig við einstaklinga í flokkum sem teljast vera með minni aflimanir en Helgi er aflimaður við hné á öðrum fæti.

30. október, spjótkast

Gert er ráð fyrir að um 1300 íþróttamenn frá 90 löndum taki þátt í mótinu en það er til mikils að vinna því þeir sem komast á verðlaunapall tryggja landi sínu þátttökusæti á Paralympics í Ríó á næsta ári.

Mynd/ Stefán Þór Borgþórsson - hópurinn í lok síðustu viku á blaðamannafundi ÍF fyrir verkefnið í Doha.