Helgi Sveinsson spjótkastari úr Ármanni sigraði í spjótkastkeppni Tyrvingleikanna á Bisletleikvanginum í Ósló í dag. Helgi sem keppir í flokki F42, íþróttamanna með aflimun fótar ofan við hné, kastaði spjótinu yfir gildandi heimsmet kínverjans Fu Yanlong sem er 52,79m frá í London 2012. Í fyrstu tilraun kastaði Helgi 53,60 m og bætti síðan um betur í sínu síðasta kasti með 56,04 m. Keppnin í dag var sérstaklega sett upp milli Helga Sveinssonar Heims- og Evrópumeistara og Rúnars Steinstad frá Noregi, bronsverðlaunahafa á ÓM í London, sem hefur verið keppinautur Helga síðustu ár. Rúnar kastaði sitt ársbesta í dag 45,12 m og þriðji var Stephan Hem með 36,79 m. Helgi og Rúnar verða keppinautar á HM í Doha 25 október.
Eins og áður segir er þetta þriðja mótið sem Helgi kastar spjótinu yfir gildandi heimsmet. En til að fá met staðfest þurfa mót að vera viðurkennd af IPC-Athletics og vera á mótaskrá þess. Fyrri mótin tvö, JJ-mótið í Laugardalnum 20. maí þar sem hann kastaði fyrst yfir heimsmetið 54,62 m og síðan í Kaplakrika í Hafnarfirði 26.maí 57,36m hafa ekki enn verið staðfest af IPC-Athletics. Það má því telja líklegt að þessi árangur Helga verði staðfest heimsmet í flokki F42, a.m.k. þar til svar hefur borist um mótið í Kaplakrika.
Helgi er nú með besta árangur á heimslista IPC í flokki F42 á undan Rúnari Steinstad. Helgi er einnig með betri árangur en þeir sem keppa í flokknum fyrir ofan F43-44, en þeir eru aflimaðir neðan hnés. Á Paralympics í Ríó á næsta ári mun Helgi keppa í sameinuðum flokki 42-44 í spjótkastinu.
Mynd/ Helgi Sveinsson ásamt Runar Steinsted t.v. og Stephen Hem eftir að hafa sigrað með 56,04m á Bislet leikvanginum 9. ágúst 2015.