Undanfarna daga hafa farið fram „flokkanir“ í hinum ýmsu íþróttagreinum en með „flokkunum“ er átt við að þá er geturstig einstaklinga eða liða skoðað. Í kjölfar þess er raðað í getuhópa þannig að hver og einn keppi í þeim flokki eða á því getustigi sem viðkomandi lið eða einstklingur býr yfir.
Þessa daga hafa heiðursgestir Special Olympics á Íslandi, Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, forseti ÍSÍ Lárus Blöndal og Helga Steinunn Guðmudnsdóttir fulltrúi Samherja og varaforseti ÍSÍ heimsótt og séð íslensku keppendurna í „flokkunum“ og keppni. Auk þessa hafa þau verið viðstödd hina ýmsu viðburði sem Special Olympics samtökin hafa sérhæft sig í s.s. að veita þroskahömluðum einstaklingum aðgang að ýmsri heilbrigðisþjónustu „Healhty athletes program“ sem t.a.m. felur í sér augn- og tannlæknaskoðun, athugun á fótum, heyrnamælingar og feira.
Þá var ráðherra og forsvarsmenn ÍSÍ viðstaddir leik Íslands og Englands í knattspyrnu í grein sem „flokkun“ var lokið en leiknum lauk með sigri Englands 4 – 0. Þó svo enska liðið hafi verið okkar piltum sterkari átti íslenska liðið sín færi, m.a. tvö sláarskot og hver veit nema önnur úrslit hefðu litið dagsins ljós ef sláinn hefði ekki þvælst fyrir okkar mönnum.
Nú fer keppni á fullt í öllum greinum enda skín eftirvænting úr augum allra sem hlakka til að takast á við og keppa við sína jafningja undir kjörorði Íþróttasambands fatlaðra „Stærsti sigurinn er að vera með“
Mynd/ Frá keppni í golfi í Los Angeles