Opnunarhátíð Alþjjóðaleika Special Olympics 2015



Laugardaginn 25. júlí, í glampandi sól undir söng og fagnaðarlátum voru Alþjóðasumarleikar Special Olympics settir af forsetafrú Bandaríkjann Michelle Obama. Áður höfðu margir af frægustu söngvurum landsins s.s. Steve Wonder stigið á svið og glatt keppendur og gesti. Þess má til gamans geta að þetta er stærsti íþróttaviðbuðurinn sem fram hefur farið í Los Angeles, oft kölluð Borg Englana, frá því að Ólympíuleikarnir fóru þar fram 1984.

Félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, gekk inn á leikvanginn í fararbroddi íslensku keppendana við mikla ánægu þeirra og hennar sjálfrar en Eygló er heiðursgestur á leikunum auk Lárusar Blöndal, forseta Íþrótta- og Ólympíusambandsins og Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur fulltrúa Samherja, aðalstyrktaraðila Special Olympics á Íslandi auk Íslandsbanka. Helga Steinunn er jafnframt varaforseti ÍSÍ.

Fyrr um daginn hafði forseti ÍSÍ horft á Ísland vinna Indland 2 – 0 í knattspyrnu og vilja íslensku knattspyrnumennirnir að Lárus sæki fleiri leiki því seinna sama dag töpuðu þeir 3 – 0 gegn Írum en það gerðist án nærveru Lárusar.

Sunnudaginn 26. júlí voru íslensku gestirnir einnig viðstaddir er Íslendingar kepptu í sundi, frjálsum íþróttum og keilu.

Hér má nálgast þónokkur myndbönd frá opnunarhátíðinni.

Mynd/ Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, marseraði inn með íslenska hópnum á opnunarhátíð Special Olympics 2015 um síðustu helgi. Við hlið Eyglóar er Anna Karólína Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri SO á Íslandi.