Kolbrún áttunda
Þriðja keppnisdegi á HM fatlaðra í sundi er nú lokið hjá íslensku keppendunum en mótið fer fram í Glasgow í Skotlandi. Í kvöld mátti Jón Margeir Sverrisson fella sig við silfurverðlaun í 200m skriðsundi S14 en hann kom í bakkann á tímanum 1:58,06 mín. Rússinn Viacheslav Emeliantsev sem í morgun setti heimsmet í greininni í undanrásum hampaði gullinu á tímanum 1:56,87 mín. en heimsmetið hans frá því í morgun er 1:56,27 mín. Rússinn gaf eftir á endasprettinum og Jón Margeir saxaði þá verulega á forskotið hans en það dugði ekki til að sinni.
Kolbrún Alda Stefánsdóttir hafnaði svo í áttunda sæti í úrslitum í 200m skriðsundi á tímanum 2:23,12 mín. sem var ansi nærri ríkjandi Íslandsmeti hennar sem er 2:23,01 mín. Hin rússneska Valeriia Shabalina hafði sigur í greininni en hún bætti heimsmetið sitt frá því í undanrásum í morgun er hún kom í bakkann á tímanum 2:04,98 mín. Rússarnir hafa því tekið forystu í greininni í bæði karla og kvennaflokki og verður forvitnilegt að sjá hverju fram vindur en EM verður í Portúgal á næsta ári og er það jafnframt síðasta stóra sundmótið fyrir Paralympics í Ríó De Janeiro 2016.
Sonja Sigurðardóttir keppti svo í 150m þrísundi í flokki SM4 í morgun og kom í bakkann á tímanum 4:57,46mín en sá tími dugði henni ekki inn í úrslit að þessu sinni.
Mynd/ Sverrir Gíslason - Jón Margeir í 200m skriðsundi í Glasgow.