Í gærdag hélt tæplega 30 manna hópur áleiðis til Færeyja til þess að taka þátt í Norræna barna- og unglingamótinu. Þessi verkefni hafa verið afar vinsæl og farsæl í næstum þrjá áratugi en mótin eru samstarfsverkefni íþróttasambanda fatlaðra á Norðurlöndum.
Alls eru átján fatlaðir íslenskir íþróttakrakkar í Færeyjum þessa stundina en hópurinn heldur við í þorpinu Tóftir. Matthildur Kristjánsdóttir stjórnarmaður hjá Íþróttasambandi fatlaðra er aðalfararstjóri í ferðinni en hópurinn mun hafa margt og mikið fyrir stafni næstu daga.
Að frátöldum sjálfum æfingunum og íþróttakeppnunum mun hópnum gefast tækifæri til þess að skoða Færeyjar sem og að reyna sig í hinum ýmsu íþróttagreinum.
Við munum greina frá ferðinni hér á ifsport.is sem og á samfélagsmiðlum okkar eins og Facebook og Snapchat en Íþróttasamband fatlaðra finnið þið á Snapchat undir heitinu: ifsport
Mynd/ Íslenski hópurinn á Reykjavíkurflugvelli í gær skömmu áður en arkað var upp í vél Atlantic Airways áleiðis til Færeyja.