Helgi stórbætti heimsmetið!



Hulda með tvö ný Íslandsmet

Frjálsíþróttafólk úr röðum fatlaðra er í ham þessi dægrin en í gærkvöldi stórbætti Helgi Sveinsson, Ármanni, heimsmet sitt í spjótkasti er hann kastaði spjótinu 57,36 metra! Stórglæsilegur árangur hjá Helga.

Í maímánuði kastaði Helgi yfir ríkjandi heimsmet í flokki sínum (F42) á JJ móti Ármanns en það kast var 54,62 metrar. Um næstum því þriggja metra bætingu var því að ræða í gærkvöldi á kastmóti FH í Krikanum.

Á fimmtudagskvöld var Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra, líka í toppgír er hún í fyrsta sinn rauf 10 metra múrinn í kúluvarpi (F20). Hulda kastaði þá kúlunni 10,26 metra sem er nýtt og glæsilegt Íslandsmet. Fleiri múrar féllu því Hulda kastaði kringlunni 32,26 metra sem einnig er nýtt Íslandsmet. Allt þetta gerði hún á 30 ára afmælisdaginn sinn!

Til hamingju með árangurinn Helgi og Hulda!

Myndir/ Á efri myndinni er Helgi fyrir miðju eftir sigur sinn á EM í Swansea 2014 en á þeirri neðra er Hulda vopnuð kringlunni.