Frjálsíþróttafólk ÍF gerði góða ferð til Grosseto á Opna Ítalska meistaramótið á dögunum. Helgi Sveinsson, Ármanni sigraði örugglega í spjótkasti í flokki aflimaðra F42 með því að kasta 52,61 m sem er nálægt gamla heimsmetinu (52,79m) sem hann sló um daginn í Laugardalnum með 54,62 m kasti. Kastsería Helga var (52,61-óg-51,33-óg-óg og 49,16 m) þar sem ekkert kastanna var tæknilega „vel“ útfært. Helgi á því greinilega enn mikið inni í spjótkastinu.
Arnar Helgi Lárusson, Njarðvík í flokki mænuskaðaðra T53, mætti með nýsmíði vetrarins sem hann smíðaði alfarið sjálfur heima í skúrnum sínum í Njarðvík. Það beit lítið á kappann þó mótvindur væri 3 metrar á sekúndu í 100 m á laugardagsmorgninum í Grosseto, hann kom í markið í 3. sæti á nýju Íslandsmeti 18,25 sek og bætti gamla metið sem var 18,65 sek, sett í Nottwill í Sviss fyrir rúmu ári síðan. Síðar sama dag tók Arnar Helgi þátt í 400m og bætti það met svo um munaði. Hann rann skeiðið á 66,68 sek og bætti metið úr 73,08 sek, einnig frá Nottwill í fyrra. Arnar Helgi keppti síðan í 200m race á sunnudag og náði tímanum 35,32 sek í mótvindi -2,6 m/s. Hann var því nokkuð frá sínu besta en má vera sáttur við árangur helgarinnar.
Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir úr Suðra í flokki F20 bætti metin sín í kúlu og kringlu. Kúlunni varpaði Hulda 9,85 m og bætti fyrra met sitt frá í vor úr 9,72 m. Krínglunni sveiflaði Hulda síðan í þrígang lengra en gildandi met hennar sem var 28,00 m. Fyrst 28,34 m, þá 28,75 m og síðan 29,78 m í lokakastinu.
Stefanía Daney Guðmundsdóttir úr Eik á Akureyri keppti í flokki 20 þar sem hún var nú formlega flokkuð. 100 m hljóp hún á 15,25 sek í -3 m/s mótvindi og náði því ekki að bæta besta árangur sinn sem er 14,86 sek frá í vor. Hún þurfti síðan að glíma við að keppa í tveimur greinum samtímis. Hún stökk langstökk og varð 5. með 4,49m (v+2,4), aðeins 14 cm frá sínum besta árangri, og í 400 m hlaupi þar sem hún var aðeins 5/100 hlutum frá sínu besta á 77,87 sek. Stefanía Daney er aðeins á sautjánda ári og á því góða framtíð fyrir sér í frjálsum. Má þar nefna að EM er á næsta ári og baráttan við árangursviðmið til Ríó er í fullum gangi fram á næsta ár.
Patrekur Andrés Axelsson úr Ármanni var flokkaður á mótinu í flokk blindra T11. Hann og aðstoðarmaður hans Einar Óli Valsson kepptu í 100 m hlaupi en urðu á mistök við endalínu sem kostuðu þá þátttökuna. Slíkt skrifast á reynsluleysi þeirra félaga en var óneitanlega svekkjandi fyrir þá. Einar Óli náði ekki að setja Patrek nægjanlega vel fram fyrir sig á endalínu og því fór sem fór. Mótvindur var mikill í hlaupinu svo ekki var að vænta mikilla afreka hvort sem var. Þeir kepptu einnig í 200m hlaupi og náðu þar góðu hlaupi, gerðu engin mistök og fengu tímann 28,65 sek í öðru sæti í sínum riðli. Þeir félagar eiga einnig framtíð fyrir sér í frjálsum eftir að hafa einungis æft einn vetur.
Megin markmið ÍF með þátttökunni í Grosseto var að fá alþjóðlega flokkun á Stefaníu Daney og Patrek og gefa þeim tækifæri á að skyggnast inn í heim afreksíþrótta fatlaðra með þátttöku í keppninni. Aðrir voru þarna til að reyna sig við jafningja og fá árangur sinn skráðan alþjóðlega. Helgi er óneitanlega einn af stóru nöfnunum í heimi fatlaðra íþróttamanna sem aðrir líta upp til. Svo eru Hulda og Arnar Helgi á sínu öðru ári í afreksheiminum og farin að taka stórstigum framförum. Þjálfarar og fararstjórn ÍF í frjálsum eru því hæst ánægð með árangurinn og hinn stækkandi landsliðshóp ÍF.
Kári Jónsson
Landsliðsþjálfari ÍF í frjálsum íþróttum