Sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson er staddur á opna þýska meistaramótinu í Berlín þessa stundina en í dag setti hann nýtt heimsmet í 200m skriðsundi í flokki S14 (þroskahamlaðir). Jón og Ástralinn Daniel Fox hafa bitist um heimsmetið síðustu ár en Jón varð fyrstur undir 1.57.00 mín. þegar hann kom í dag í bakkann á 1.56,94 mín! Stórglæsilegur árangur hjá Fjölnismanninum.
Jón varð Ólympíumeistari í greininni á Paralympics í London 2012 og setti þá einnig nýtt heimsmet, Evrópumet, Ólympíumet og Íslandsmet í því sundi en sigurtími Jóns í London var 1.59,62 mín. Það er því nokkuð ljóst að baráttan er hörð í greininni og á einungis eftir að harða eftir því sem nær dregur Paralympics í Ríó í Brasilíu 2016!
Helsti keppinautur Jóns, Daniel Fox, var mættur líka í laugina og varð að láta sér lynda annað sætið á tímanum 1:57,07 mín. Barátta þessa tveggja öflugu sundmanna heldur því áfram og nær hámarki í Brasilíu á næsta ári.
Til hamingju Jón Margeir með heimsmetið!
Ljósmynd/ Sverrir Gíslason - Jón fagnar í Berlín í dag eftir sigurinn í 200m skriðsundi.