Norræna barna- og unglingamótið í Færeyjum 2.-7. júlí



Dagana 2.-7. júlí næstkomandi fer Norræna barna- og unglinamótið í íþróttum fatlaðra fram í Færeyjum. Mótið er fyrir fötluð börn og ungmenni á aldrinum 12-16 ára.

- Farsæl saga í rúma þrjá áratugi

 
Barna- og unglingastarf hefur allt frá stofnun Íþróttasambands fatlaðra árið 1979 verið á oddinum í starfi sambandsins. Markvisst hefur verið unnið að því að gera fötluðu ungu fólki kleift að sækja mót jafnaldra sinna á erlendum vettvangi, einkum á Norðurlöndum. Árið 1981 stóð Svíþjóð fyrir Norrænu barna- og unglingamóti í fyrsta sinn í þeirri mynd sem það þekkist í dag, mótið fer fram annað hvert ár og í ár er það haldið í Færeyjum dagana 2.-7. júlí.
 
Norðurlöndin skiptast á að halda mótið en sumarið 2013 fór það fram í Danmörku þar sem hátt í 20 íslenskir íþróttakrakkar tóku þátt. Einn þátttakenda frá árinu 2011 þegar mótið var haldið í Finnlandi hélt svo áfram og keppti á Ólympíumóti fatlaðra í London en það var frjálsíþróttakonan Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir.
 
Á síðustu þremur áratugum hefur Norræna barna- og unglingamótið verið frumraun margra íþróttamanna á erlendum vettvangi. Þar hafa skærustu íþróttastjörnur Íslands úr röðum fatlaðra fengið að spreyta sig og farið áfram og vakið heimsathygli. Þetta eru íþróttamenn á borð við Hauk Gunnarsson, Kristínu Rós Hákonardóttur, Geir Sverrisson, Ólaf Eiríksson, Birkir Rúnar Gunnarsson, Sigrúnu Huld Hrafnsdóttur og Jón Odd Halldórsson og svona mætti lengi telja.
 
Í júlíbyrjun 2015 stefnir Ísland að því að senda um 15 keppendur á mótið í Færeyjum og halda áfram að gefa ungu íþróttafólki með fötlun tækifæri á því að keppa við jafningja sína og öðlast þannig dýrmæta reynslu af æfingum og keppni á stærra og sterkara sviði en þekkist hér heima. Mótið er fyrir börn og unglinga á aldrinum 12-16 ára þar sem framkvæmdin miðast ekki einvörðungu að keppninni sjálfri heldur er staðið að ítarlegum kynningum á fjölbreyttum íþróttagreinum fyrir fatlaða.
 
Staðreyndir:
Norræna barna- og unglingamótið
Haldið í Færeyjum 2.-7. júlí 2015
Fyrir börn og unglinga á aldrinum 12-16 ára
Íþróttagreinar í boði í Færeyjum: Borðtennis, Sund, frjálsar og fimleikar
 
Fyrir þá sem hyggja á þátttöku í verkefninu:

Upplýsingar með tilnefningarblöðum hafa þegar verið sendar á aðildarfélög Íþróttasambands fatlaðra og víðar. Tilnefningum skal skila á if@isisport.is eigi síðar en fimmtudaginn 5. febrúar næstkomandi. Tilkynnt verður síðar um fararstjóra/þjálfara í ferðinni. Val úr innsendum tillögum er endanlega samþykkt af stjórn Íþróttasambands fatlaðra.

Þeir sem ekki hafa fengið póstinn frá ÍF með tilnefningablaði og upplýsingum geta haft samband við skrifstofu í síma 514 4080 eða á if@isisport.is

Mynd/ Svangaskarð í Færeyjum þar sem mótið fer fram.