Helgi Evrópumeistari!



Helgi Sveinsson, Ármann, er Evrópumeistari í spjótkasti í flokki F42 en hann var rétt í þessu að hafa sigur í greininni á Evrópumeistaramóti fatlaðra sem nú fer fram í Swansea. Lengsta kast Helga reyndist 50,74 metrar og dugði það til sigurs svo Helgi er nú ríkjandi heims- og Evrópumeistari í greininni.

Kastsería Helga:

50,06 - 46,23 - x - 49,39 - 48,87 og 50,74

Norðmaðurinn Runar Steinstad varð annar með kast upp á 47,18 metra og Búlgarinn Dechko Ovcharov varð þriðji með kast upp á 43,44 metra.

Heimsmetið hjá Kínverjanum Fu Yanlong stendur því enn í 52,79 metrum og Evrópumet Danans Jakob Mathiasen lifir því enn góðu lífi síðan árið 2000 og er 52,74 metrar. Íslandsmet Helga stendur einnig óhaggað frá því fyrr í sumar en það er 51,83 metrar.

Helgi hefur lokið keppni á Evrópumeistaramótinu og kemur heim til Íslands vopnaður gullverðlaunum.

Til hamingju Helgi!

Mynd/ Jón Björn: Helgi ásamt Kára Jónssyni landsliðsþjálfara ÍF í frjálsum en þeir kappar voru eins og gefur að skilja kampakátir í Swansea í dag.