Íslenski sundhópurinn sem keppti á Evrópumeistaramóti fatlaðra í Eindhoven kom heim í gær, mánudaginn 11. ágúst. Með í farteskinu voru Evrópumeistaratitill Jóns Margeirs Sverrissonar, bronsverðlaun Thelmu Bjargar Björnsdóttur og fjöldi Íslandsmeta. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Þórður Árni Hjaltested varaformaður ÍF voru mættir í Leifsstöð og buðu hópinn velkominn heim með veglegum blómvöndum.
Þjálfarar í ferðinni voru þau Kristín Guðmundsdóttir og Ragnar Friðbjarnarson og fengu þau vitaskuld forláta blómvönd fyrir sitt vasklega starf.
Á mótinu í Eindhoven féllu alls 24 ný heimsmet og 42 ný Evrópumet. Úkraínumenn voru sigursælasta þjóð mótsins með 37 gullverðlaun, Rússar í 2. sæti með 34 gullverðlaun en höfðu sigur í heildarverðlaunafjölda með 95 verðlaun alls. Bretar komu svo í 3. sæti með 30 gullverðlaun. Ísland hafnaði í 16. sæti á verðlaunalistanum með eitt gull og eitt brons.
Mynd/ Jón Björn: Íslenski hópurinn ásamt Sveini Áka Lúðvíkssyni formanni ÍF í Leifsstöð í gær.