Jón Margeir Sverrisson, Fjölnir, er Evrópumeistari í 200m skriðsundi S14 karla á nýju og glæsilegu Evrópumeti en hann var enda við að landa sigrinum í Eindhoven. Jón kom í bakkann á 1:58,60mín. sem er vitaskuld nýtt Íslandsmet sem og Evrópumet. Ríkjandi Evrópumet Jóns var 1:59,30mín. sem hann hreinlega splundraði áðan. Mögnuð frammistaða hjá Jóni sem verður aftur á ferðinni á sunnudag þegar hann keppir í 200m fjórsundi.
Í morgun tryggði Thelma Björg Björnsdóttir sér sæti í úrslitum kvöldsins í 100m skriðsundi S6 kvenna er hún synti á 1:26,11 mín. Íslandsmet Thelmu er 1:25,22mín. en hún varð fjórða í undanrásunum. Thelma mun klárlega berjast fyrir sæti á palli í kvöld enda hefur hún vart farið í laugina ytra án þess að setja ný met.
Stöllurnar Kolbrún Alda Stefánsdóttir, Fjörður/SH, og Aníta Ósk Hrafnsdóttir, Fjörður/Breiðablik, tóku svo þátt í undanrásum 200m skriðsunds S14 kvenna í morgun og komust ekki í úrslit. Það gerist ekki oft en þær komu í bakkann á nákvæmlega sama tíma eða báðar á tímanum 2:27,72 mín. Aníta var þar að bæta sinn besta tíma umtalsvert en Kolbrún var nokkuð frá sínum besta tíma sem er 2:23,01 mín.
Mynd/ Sverrir Gíslason - Jón Margeir fagnar sigrinum í Eindhoven.