Thelma í 6. sæti með tvö ný Íslandsmet



Thelma Björg Björnsdóttir hafnaði í dag í 6. sæti í 200m fjórsundi á Evrópumeistaramóti fatlaðra sem nú stendur yfir í Eindhoven í Hollandi. Árangurinn lætur ekki á sér standa hjá Thelmu sem vart dýfir tá í laugina án þess að yfirkeyra gildandi Íslandsmet sín. Í 200m fjórsundinu í dag setti hún tvö ný met!

Thelma kom í bakkann á 3:40,19 mín. sem er nýtt Íslandsmet í greininni og í fyrstu ferð í 50m flugsundi setti hún einnig nýtt Íslandsmet er hún synti ferðina á 47,69 sek.

Hin breska Ellie Simmonds setti nýtt heimsmet í greininni er hún kom í bakkann á 3:04,07 mín.

Á morgun, föstudaginn 8. ágúst, eru allir íslensku keppendurnir í sviðsljósinu. Kolbrún Alda, Aníta Ósk og Jón Margeir keppa öll í 200m skriðsundi S14 og Thelma keppir í 100m skriðsundi S6.

Mynd/ Sverrir Gíslason - Thelma syndir hér baksundið í 200m fjórsundinu í Hollandi í dag.