Jón, Thelma og Kolbrún öll með Íslandsmet í úrslitum



Þriðja keppnisdegi á Evrópumeistaramóti fatlaðra er nú lokið hjá íslenska hópnum. Þrír af fjórum sundmönnum Íslands tóku þátt í úrslitum í dag og settu þeir allir ný Íslandsmet í sínum greinum. Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, reið á vaðið í 50m skriðsundi í flokki S6 en þar varð Thlema sjötta á 39,49 sek. sem er bæting á Íslandsmetinu sem hún setti í undanrásum í morgun sem var 40,32 sekúndur.

Næstur á svið var Jón Margeir Sverrisson, Fjölni, í 100m bringusundi S14 karla en Jón hafnaði í 4. sæti á 1:13,81 mín. sem er nýtt Íslandsmet í greininni. Eldra met Jóns var 1:13,91 mín. og því bæting upp á 10 sekúndubrot.

Kolbrún Alda Stefánsdóttir, Fjörður/SH, hafnaði í sjötta sæti í 100m bringusundi S14 kvenna á tímanum 1:24,14 mín. sem er stórbæting á Íslandsmetinu sem hún setti í undanrásum í morgun en þá synti Kolbrún á tímanum 1:25,24 mín. Þá var millitími Kolbrúnar einnig Íslandsmet í 50m bringusundi, 39,23 sek. Spánverjinn Alonso Morales setti nýtt heimsmet í greininni áðan þegar hún kom í bakkann á 1:15,83 mín.

Á morgun er Thelma Björg ein íslenskra keppenda sem fer í laugina í Eindhoven þegar hún keppir í 200m fjórsundi S6.

Við minnum einnig á myndasafnið okkar á 123.is/if sem er reglulega uppfært en myndirnar ytra tekur Sverrir Gíslason.

Mynd/ Jón Margeir gerir sig kláran fyrir átökin í úrslitum 100m bringusundsins.