Thelma fimmta í flugi og sjöunda í bringu



Öðrum keppnisdegi á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi er að ljúka og var Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, rétt í þessu að klára daginn fyrir Ísland. Thelma var eini Íslendingurinn sem keppti í dag en hún bætti naumlega Íslandsmetið sitt í 50m flugsundi þegar hún hafnaði í 5. sæti.

Í úrslitum 100m SB5 bringusundsins hafnaði Thelma í sjöunda sæti á 2:04,47 mín. svo Íslandsmet hennar stendur enn óhaggað en það er 2:03,17 mín. Um bein úrslit í 50m flugsundi var að ræða þar sem Thelma hafnaði í 5. sæti á nýju Íslandsmeti eða 47,73 sek. Eldra met hennar var 47,95 sek.

Á morgun, 6. ágúst, keppir Thelma Björg í 50m skriðsundi en þau Jón Margeir, Aníta Ósk og Kolbrún Alda keppa öll í 100m bringusundi í flokki S14 (þroskahamlaðir).

Mynd/ Paralympicsport.tv - Thelma Björg gerir sig fyrr í dag klára fyrir átökin í 100m bringusund SB5.