Keppendur Íslands á EM fatlaðra í frjálsum



Ísland mun eiga þrjá fulltrúa á Evrópumeistaramóti fatlaðra í frjálsum íþróttum þetta sumarið en mótið fer fram í Swansea í Wales. Keppendur Íslands verða Helgi Sveinsson, Ármann, Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir, ÍFR og Arnar Helgi Lárusson, Nes.
 
Helgi er ríkjandi heimsmeistari í spjótkasti í flokki F42 og bætti hann Íslandsmetið sitt í greininni í Sviss í maímánuði þegar hann kastaði spjótinu 51,83 metra. Evrópumetið í flokki Helga er 52,74 metrar og í eigu Danans Jakob Mathiasen og hefur staðið síðan árið 2000.
 
Matthildur Ylfa keppir í flokki T og F 37 en hennar greinar á EM verða 400m. hlaup sem og langstökk. Matthildur á áttunda lengsta stökkið í langstökki í sínum flokki þetta árið en hún stökk 4.08m. í Grosseto á Ítalíu. Íslandsmet hennar í greininni utanhúss er 4.28m síðan 2012. Þá á Matthildur sjöunda besta tíma ársins í 400m. hlaupi í flokki T37 sem er 1:14,70 mín. en þeim tíma náði hún á opna meistaramótinu í Berlín.
 
Arnar Helgi Lárusson keppir í hjólastólakappakstri (e. Wheelchair Racing) og mun hann keppa í 100m. og 200m. hjólastólakappakstri. Arnar setti ný Íslandsmet í báðum greinum í Sviss í maímánuði en Íslandsmet hans í 100m. er 18,65 sek. og Íslandsmet hans í 200m. er 34,55 sek. Sem stendur er Arnar með 26. besta tíma ársins í 100m. og 23. besta tíma ársins í 200m.
 
Evrópumeistaramót fatlaðra í frjálsum fer fram dagana 18.-23. ágúst næstkomandi en hér að neðan má nálgast keppnisdagskrá íslensku keppendanna í Swansea:
 
(birt með fyrirvara um mögulegar breytingar)
 
19. ágúst
 
Spjótkast, úrslit - Helgi Sveinsson F42
 
20. ágúst
 
100m hjólastólarace, úrslit - Arnar Helgi Lárusson T53
 
21. ágúst
 
langstökk, úrslit - Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir F37
200 hjólastólarace, úrslit - Arnar Helgi Lárusson T53
 
22. ágúst
 
400m  úrslit - Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir T37

Heimasíða EM í Swansea