Þrjár á opna þýska



Opna þýska meistaramótið í frjálsum fatlaðra hefst á morgun, föstudag. Þrjár íslenskar frjálsíþróttakonur eru mættar út til Berlínar til að taka þátt. Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir, ÍFR, mun keppa á mótinu sem og þær Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra, og Ingeborg Eide Garðarsdóttir, FH. Þetta er síðasta stórmótið fyrir sjálft Evrópumeistaramótið sem fram fer í Swansea í ágústmánuði.

Matthildur hefur þegar tryggt sér farseðilinn á EM í Swansea en það ræðst núna í Þýskalandi hvort Huldu og Ingeborg takist að tryggja sér farseðilinn með henni. Hulda keppir í kúluvarpi í flokki U20 og kringlukasti en Ingeborg er í sama flokki og Matthildur, flokki 37 og keppir í spjótkasti, kúluvarpi og kringlukasti. Matthildur keppir í 100m og 400m hlaupi sem og langstökki.

Hægt er að fylgjast með úrslitum mótsins hér

Mynd/ JBÓ: Matthildur Ylfa í 100m hlaupi á Íslandsmóti ÍF á Laugardalsvelli þann 7. júní síðastliðinn.