Ásta Katrín orðin ITO



Ásta Katrín Helgadóttir lauk á dögunum prófi sem IPC Athletics National Technical Official á vegum Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC). Ásta Katrín er fyrst Íslendinga til að ljúka þessu námskeiði hjá IPC en það gefur henni réttindi til að hafa yfirumsjón t.d. með frjálsíþróttamótum hérlendis sem erlendis. Fyrir vikið verður hægt að leyfisskylda frjálsíþróttamót fatlaðra hérlendis með þeim niðurstöðum að árangur fatlaðra íþróttamanna sem þegar hafa lokið alþjóðlegri flokkun verður góður og gildur á heimslistum viðkomandi greina. Þessi tíðindi eru gríðarlega jákvæð fyrir fatlað íslenskt frjálsíþróttafólk og mikil búbót fyrir íþróttina.
 
Ásta Kata er nefndarmaður í frjálsíþróttanefnd Íþróttasambands fatlaðra og hefur þjálfað fatlaða iðkendur um árabil í frjálsum. Á morgun heldur hún utan til Þýskalands þar sem hún verður í þjálfarateymi sem stýra mun þremur íslenskum keppendum á opna þýska meistaramótinu í frjálsum.
 
ÍF óskar Ástu innilega til hamingju með áfangann!

Mynd/ Ásta Katrín við dómarastörf á opna ítalska meistaramótinu  í maí.