Vegna þess ástands sem nú ríkir á Krímskaga vill Íþróttasamband fatlaðra koma á framfæri eftirfarandi yfirlýsingu frá Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra – IPC.
Þar segir að IPC ásamt framkvæmdanefnd Vetrarólympímóts fatlaðra, sem fram fer í Sochi 7. – 16. mars n.k., fylgist náið með hverju fram vindur á Krímskaga. IPC ásamt framkvæmdanefndinni muni áfram vinna að því að gera Ólympíumót fatlaðra í vetraríþróttum eins vel úr garði og mögulegt er og að umgjörð þess og gæði keppninnar verði eins og best verði á kosið.
Eins og ávallt verði öryggi og velferð keppenda haft í hávegum. Jafnframt segir í fréttatilkynningunni að IPC vonist til að friðsæl lausn finnist í anda Ólympíuleikanna og Ólympíumóts fatlaðra þar sem einstaklingar keppa sín í milli í anda friðar án tillits til litarháttar, trúarbragða eða stjórnmálaskoðana.
Nú þegar eru 39 þjóðir af þeim 45 sem skráðar eru til leiks mættar á svæðið og hinar sex á leið til Sochi. Ísland og önnur Norðurlönd koma fram sem ein heild í Sochi undir nafninu „Five nations – one team“. Þessi samvinna felur meðal annars í sér sameiginlega skrifstofu, aðgang að sérfræðingum hvers lands, s.s. sjúkraþjálfurum, læknum og fleiru sem tengist þátttöku í stórmóti af þessu tagi. Einnig er þjóðunum boðið til þeirra viðburða sem hvert land stendur fyrir með þeim ráðamönnum sem frá Norðurlöndum koma. Þess ber að geta að fulltrúum íslenska hópsins er boðið til móttöku hjá sænska liðinu, þar sem Viktoría prinsessa heiðrar gesti með nærveru sinni.
Íþróttasambandi fatlaðra er því mikill sómi sýndur að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra skyldi þekkjast boð ÍF og heiðra þátttakendur Íslands í Sochi með nærveru sinni.
Mynd/ Íslenski fáninn er vitaskuld kominn út á svalir í híbýlum hópsins í Sochi.