Sochi: 6 dagar til stefnu



Í dag eru sex dagar þangað til Vetrarólympíumót fatlaðra verður sett í Sochi í Rússlandi. Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) greinir frá því í dag að Ólympíumótsþorpin séu nú klár og reiðubúin til þess að taka á móti keppendum á mótinu. Íslenska sveitin mun gista í Mountain Village sem staðsett er á Krasnaya Polyana svæðinu í fjöllunum ofan við Sochi-borg en hún liggur sjálf niðri við sjávarsíðu Svartahafsins.

Sleða-hokkýlið Kanadamanna var eitt af fyrstu liðunum á svæðið en um 1600 íþróttamenn og aðstoðarfólk, 2000 starfsmenn og sjálfboðaliðar munu setja skemmtilega mynd á Ólympíumótsþorpin en hluti keppenda dvelur í Costal Village niðri við strönd en annar hluti eins og áður greinir í Mountain Village.

Fleiri gagnlegar upplýsingar um Sochi má nálgast á heimasíðu IPC á www.paralympic.org sem og á heimasíðu leikanna sjálfara, www.sochi2014.com/en