Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra, IPC, tilkynnti nú í morgun að Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi í 50m laug fari fram í Eindhoven í Hollandi dagana 4.-10. ágúst næstkomandi. Það verður því skammt stórra högga á milli hjá fötluðu afreksfólki í sumar því 18.-23. ágúst fer EM fatlaðra í frjálsum fram í Swansea í Wales.
Gert er ráð fyrir um 500 keppendum á EM í sundi frá um það bil 40 löndum. EM er stærsta mótið sem fatlaðir sundmenn taka þátt í áður en HM fer fram í Glasgow 2015 og svo sjálft Ólympíumótið í Ríó í Brasilíu árið 2016.
Keppt verður í Pieter van den Hoogenband höllinni, þeirri sömu og hýsti HM 2010.
Mynd/ Sundkonan Thelma B. Björnsdóttir, ÍFR, mun vísast láta vel að sér kveða á EM í Hollandi en Thelma syndir í flokki S6 sem er flokkur hreyfihamlaðra. Hreyfihamlaðir sundmenn synda í flokkum S1-S10, þeim mun lægri sem talan er þeim mun meiri skerðingu á hreyfigetu einstaklingsins er að ræða.