Grámulla til styrktar íþróttastarfi fatlaðra barna



Skartgripir Leonard sem tengdir eru Flóru Íslands hafa verið seldir til stuðnings íþrótta- og tómstundastarfi barna síðustu ár og að þessu sinni verður Grámulla seld til styrktar íþróttastarfi barna hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Það var handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson sem afhenti þremur öflugum ungmennum fyrstu Grámulluna í verslun Leonard í Kringlunni.

Þeir Hafliði Hafþórsson, Hilmar Björn Zoega og Ísar Þorsteinsson æfa allir frjálsar íþróttir undir leiðsögn Lindu Kristinsdóttur og Theodórs Karlssonar en æfingar þessar eru liður Íþróttasambands fatlaðra í því að bjóða fötluðum börnum 13 ára og yngri upp á frjálsíþróttaæfingar og önnur fjölbreytt æfingaúrræði með svokölluðum kynningardögum þar sem hinar ýmsu íþróttir eru kynntar fyrir börnum og ungmennum á þessum aldri.

Grámulla er bæði hálsmen og eyrnalokkar sem Eggert Pétursson og Sif Jakobs hafa hannað fyrir Leonard en Grámulla er smíðuð úr silfri með ródíumhúð og skreytt sirkonsteinum og er að sjálfsögðu jólagjöfin í ár!

Þess má einnig geta að allir eru velkomnir á frjálsíþróttaæfingar ÍF fyrir fötluð börn 13 ára og yngri en æfingarnar fara fram á fimmtudögum kl. 16:30 í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Nánari upplýsingar um æfingarnar veitir Linda Kristinsdóttir annar þjálfara við æfingarnar og formaður frjálsíþróttanefndar ÍF í síma 862 7555.

Mynd/ Efri röð frá vinstri: Sif Jakobs, Ólafur Stefánsson, Sævar Jónsson, Helga Daníelsdóttir, Egger Pétursson. Neðri röð frá vinstri: Hafliði Hafþórsson, Ísar Þorsteinsson og Hilmar Björn Zoega.