Fjögur ný Íslandsmet um helgina



Fjögur ný Íslandsmet féllu um helgina þegar fatlað íþróttafólk lét að sér kveða í bæði frjálsum og sundi.

Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra, setti nýtt Íslandsmet í kúluvarpi um helgina í flokki þroskahamlaðra. Hulda sem tók þátt í aðventumóti Ármanns varpaði kúlunni 9,20 metra en gamla innanhússmetið hennar var 8,88 metrar.
Aðventumót Ármanns markar upphaf innanhússtímabils frjálsíþróttamanna þennan veturinn. Hulda opnar því tímabilið með miklum látum en hún hefur í haust æft mjög markvisst undir stjórn Ástu Katrínar Helgadóttur.

Þá fór unglingamót Fjölnis í sundi í 25m. laug fram um helgina þar sem þrjú ný Íslandsmet féllu. Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, nýkjörin íþróttakona ársins fyllti fjóra tugina af Íslandsmetum þetta árið er hún setti tvö ný þetta mótið. Thelma sem keppir í flokki S6 (hreyfihamlaðir) synti á 3:48,44 mín. í 200m fjórsundi og svo setti hún nýtt Íslandsmet í 50m flugsundi á tímanum 51,26 sek. Marinó Ingi Adolfsson, ÍFR, setti einnig nýtt Íslandsmet í 200m fjórsundi er hann synti á tímanum 3;11,88 mín.

Mynd/ Hulda Sigurjónsdóttir er einbeitt þessi dægrin og ætlar sér mikla og góða hluti í kúluvarpinu.