Mánudaginn 14. október næstkomandi hefjast frjálsíþróttaæfingar hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík en þjálfari verður Ásta Katrín Helgadóttir, margreyndur frjálsíþróttaþjálfari og landsliðsþjálfari hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Æfingarnar eru fyrir hreyfihamlaða 13 ára og eldri en æft verður mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal kl. 17:30.
Kári Jónsson landsliðsþjálfari Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum mun einnig verða iðkendum innan handar þegar svo ber undir en Ásta Katrín verður aðalþjálfari hópsins en hún hefur um árabil stýrt fötluðu frjálsíþróttafólki í keppnum hér heima sem og erlendis. Bæði Ásta Katrín og Kári fóru fyrir frjálsíþróttalandsliði Íslands sem keppti á Ólympíumóti fatlaðra í London 2012. Kári var til margra ára lektor við Íþróttafræðadeild Háskóla Íslands á Laugarvatni og hefur sinnt starfi landsliðsþjálfara í frjálsum síðastliðin 16 ár. Iðkendur verða því undir handleiðslu allra fremstu frjálsíþróttaþjálfara úr röðum fatlaðra.
Æfingarnar eru fyrir hreyfihamlaða einstaklinga 13 ára og eldri og hefjast núna strax næstkomandi mánudag, 14. október, í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.
Mynd/ Ásta Katrín og Kári ásamt frjálsíþróttafólkinu Matthildi, Huldu og Arnari á Opna þýska meistaramótinu í frjálsum síðastliðið sumar.