Æfingar í Markbolta hafnar



Síðasta laugardag þ.e. 5. október hófust æfingar í Markbolta hjá ÍFR í samstarfi við Blindrafélagið. Fyrsta æfingin gekk mjög vel og lofaði hún góðu um framhaldið. Níu einstaklingar mættu á aldrinum 10 til 70 ára og tóku vel á því.
 
Markbolti er boltaíþrótt sem var upphaflega hugsuð fyrir blinda og sjónskerta svo þeir gætu stundað boltasport. Allir iðkendur eru með bundið fyrir augun meðan á leik stendur og eins og í öðrum boltaíþróttum snýst málið um að skora mark hjá andstæðingnum og er það gert með því að kasta bolta með bjöllum eftir gólfinu. Þessi íþrótt býður upp  á hraða og spennu eins og margar aðrar boltaíþróttir.
 
Við hjá ÍF viljum hvetja sem flesta til að mæta í íþróttahús fatlaðra til að prófa þessa skemmtilegu íþrótt. Æfingar fara fram á laugardögum kl. 11.00 til 12.00. Iðkendum gefst tækifæri á að fara í tækjasal eftir markboltaæfingar. Frí æfingagjöld fram að áramótum.

Nú er rétta tækifærið til að fara að hreyfa sig og æskilegt að iðkendur mæti í síðum íþróttagöllum til að varna því að fólk brenni sig á gólfinu þegar iðkendur skutla sér á eftir boltanum.
 
Nánari upplýsingar veitir Halldór Sævar Guðbergsson í síma 860 5810 eða í netfanginu halldor@midstod.is   

Mynd/ Frá æfingunni 5. október síðastliðnum í Íþróttahúsi ÍFR að Hátúni í Reykjavík.