Jón með silfur á nýju Evrópu- og Íslandsmeti



Fyrsta keppnisdegi á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi er lokið í Montréal í Kanada og verðlaun þegar komin í hús hjá íslensku sveitinni. Jón Margeir Sverrisson landaði silfurverðlaunum í 200m. skriðsundi í flokki S14 þegar hann kom í bakkann á nýju Evrópu- og Íslandsmeti. Ástralinn Daniel Fox varð heimsmeistari en um magnað úrslitasund var að ræða enn eina ferðina í 200m. skriðsundi hjá S14 körlum en Íslendingar eru úrslitunum í London 2012 auðvitað að góðu kunnir.

Daniel Fox synti á tímanum 1.58,45mín. sem dugði honum til sigurs en Jón kom í mark á tímanum 1.59,30mín. Úrslitasundið var gríðarlega spennandi og kapparnir Fox og Jón ásamt Kóreumanninum Wonsang Cho buðu upp á æsispennandi og skemmtilegt úrslitasund og ljóst að keppnin í þessum flokki og þessari grein er og verður gríðarleg!

Thelma Björg Björnsdóttir synti einnig í úrslitum þennan fyrsta keppnisdag og var nærri Íslandsmeti sínu í flokki S6 í 400m skriðsundi þegar hún kom í mark á tímanum 6.14.50mín. Ríkjandi Íslandsmet Thelmu er 6.14,17mín. og hafnaði hún í fimmta sæti í dag á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.

Liðsstjórinn Aníta Ósk Hrafnsdóttir var svo fánaberi Íslands við opnunarhátíðina í kvöld svo það er ansi viðburðaríkur dagur að baki hér í Kanada.

Fylgist einnig með á Facebook-síðu ÍF: https://www.facebook.com/IthrottasambandFatladra