Hjörtur syndir í úrslitum í kvöld



Hjörtur Már Ingvarsson, Firði, mun synda í úrslitum í kvöld á heimsmeistaramóti fatlaðra sem nú stendur yfir í Montréal í Kanada. Hjörtur varð í morgun áttundi inn í úrslit í 200m skriðsundi í flokki S5 en tíminn hjá Hirti hjó ansi nærri ríkjandi Íslandsmeti hans.

Millitíminn hjá Hirti á 100 metrum var nýtt Íslandsmet í 100m skriðsundi en Hjörtur var þá á 1.33.44mín. Lokatími Hjartar í morgun var 3.16.49mín en Brasilíumaðurinn Daniel Dias var fyrstur eftir undanrásirnar í morgun á tímanum 2.35.64mín. Heimsmet hans síðan 2010 er 2.26,51mín. og má ansi mikið fara úrskeiðis hjá þessum öfluga Brasilíumanni í kvöld í úrslitum til þess að hann vinni ekki gull. Okkar maður Hjörtur Már mun svo að sjálfsögðu gera heiðarlega tilraun til þess að fella Íslandsmetið sitt í 200m skriðsundi sem er 3.16.33mín og var hann ansi nærri því í morgun.

Úrslitin hjá Hirti hefjast svo kl. 17:18 að staðartíma eða kl. 21.18 að íslenskum tíma og sem fyrr bendum við á að hægt er að fylgjast með úrslitasundum í beinni á netinu í gegnum hlekk hér á forsíðu ÍF.

Mynd/ Hjörtur við upphitun í morgun fyrir keppni í undanrásunum í 200m skriðsundi.