Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi er á næstu grösum en íslenski hópurinn heldur áleiðis til Montréal í Kanada fimmtudaginn 8. ágúst næstkomandi. Í aðdraganda og undirbúningi fyrir mótið kom upp óvenjuleg staða sem ekki varð haggað hjá Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra (IPC) en hún hafði það í för með sér að Aníta Ósk Hrafnsdóttir fær ekki að synda á heimsmeistaramótinu þrátt fyrir að hafa náð lágmörkum inn á mótið.
Íþróttasamband fatlaðra fór alla leið með málið innan raða IPC en niðurstöðunni varð ekki haggað. Vegna flokkunarmála mun Aníta ekki fá að synda en þroskahamlaðir sundmenn þurfa í tvígang á ferli sínum að gangast undir flokkun og stóð til að Aníta færi í sína síðari flokkun í Kanada. Af tæknilegum ástæðum sem hafa að gera með lágmörk Anítu mun hún ekki keppa á mótinu. Sundmaðurinn sjálfur gerði allt rétt og harmar Íþróttasamband fatlaðra þessa niðurstöðu IPC þar sem regluverkið bitnar jafn harkalega á íþróttamanninum og raun ber vitni.
Aníta hefur sýnt magnaða þrautsegju síðan þetta mál kom upp og æft af miklu kappi með landsliðinu sem heldur út næsta fimmtudag. Íþróttasamband fatlaðra hefur útnefnt Anítu sem liðsstjóra í ferðinni og verður hún því félögum sínum innan handar í ferðinni enda mikilvægur hluti af þessum keppnishóp.
Keppnishópur Íslands á HM í Kanada verður því eftirfarandi:
Jón Margeir Sverrisson
Hjörtur Már Ingvarsson
Thelma Björg Björnsdóttir
Kolbrún Alda Stefánsdóttir