Spjótkastarinn Helgi Sveinsson, Ármann, tryggði sér heimsmeistaratitilinn í spjótkasti á Heimsmeistaramóti fatlaðra sem nú fer fram í Lyon í Frakklandi. Sigurkastið kom í sjötta og síðasta kastinu hjá Helga er spjótið flaug 50,98 metra. Helgi keppir í flokki F42 sem er flokkur afmlimaðra.
Helgi stórbætti Íslandsmetið sitt sem hann setti fyrr í sumar sem var sléttir 48,00 metrar og setti einnig mótsmet með því að kasta 50,98 metra í Lyon. Kastsería Helga var sem hér segir:
47,77m - 46,48m - 48,98m - x - 44,59m - 50,98m
Stórglæsilegur árangur hjá Helga sem á EM 2012 hafnaði í 2. sæti á eftir Norðmanninum Runari Steinstad og var í 5. sæti á Ólympíumóti fatlaðra í London 2012. Íslendingar munu því koma með heimsmeistara aftur til Íslands þann 28. júlí næstkomandi þegar hópurinn lendir hér heima. Sigurkastið hjá Helga var einnig mótsmet á heimsmeistaramóti fatlaðra og var Helgi þá að slá 15 ára gamalt met sem sett hafði verið á HM í Birmingham árið 1998.
Úrslit spjótkastkeppninnar:
1. Helgi Sveinsson - Ísland - 50,98m
2. Fu Yanlong - Kína - 50,89m
3. Runar Steinstad - Noregur - 49,81m