Íslensku keppendurnir sem á næstunni munu taka þátt í heimsmeistaramótunum í sundi og í frjálsum komu saman í Bláa Lóninu þann 9. júlí síðastliðinn og áttu þar saman afslappaða stund í mögnuðu umhverfi. Bláa Lónið er einn af stærstu samstarfs- og styrktaraðilum Íþróttasambands fatlaðra og var HM-förunum boðið til matar og að sjálfsögðu lét hópurinn líða úr sér í heilsulindinni heimsfrægu. Bæði frjálsíþróttafólkið og sundfólkið hafa æft af miklu kappi undanfarið og því vel þegin slökun hjá hópnum að koma við í Bláa Lóninu.
Forsvarsmenn Bláa Lónsins leystu hópinn út með veglegum gjöfum og var reiddur fram ljúffengur kjúklingur á veitingastaðnum Lava. Íslensku keppendurnir halda því endurnærðir á stórmótin en frjálsíþróttahópurinn heldur til Lyon í Frakklandi þann 18. júlí næstkomandi og er væntanlegur aftur heim 28. júlí. Sundhópurinn heldur til Montréal í Kanada þann 8. ágúst og snýr aftur heim þann 19. ágúst. Með í för í þessi tvö stærstu verkefni fatlaðra íþróttamanna síðan Ólympíumótið í London fór fram eru allir Ólympíumótsfararnir, þau Helgi Sveinsson og Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir í frjálsum ásamt Arnari Helga Lárussyni. Þá keppa þau Jón Margeir Sverrisson og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í sundi í Kanada en Thelma Björg Björnsdóttir, Hjörtur Már Ingvarsson og Aníta Ósk Hrafnsdóttir verða einnig fulltrúar Íslands á heimsmeistaramótinu í sundi.
Bláa Lónið og Íþróttasamband fatlaðra gerðu með sér samstarfssamning fyrir Ólympíumót fatlaðra í London síðastliðið sumar. Samningurinn er til fjögurra ára og gildir fram yfir Ólympíumót Fatlaðra í Ríó 2016.
Mynd/ Ellert Grétarsson - HM hópar ÍF og með á myndinni eru Linda Kristinsdóttir formaður frjálsíþróttanefndar, Þór Jónsson formaður sundnefndar, Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og fulltrúar Bláa Lónsins á myndinni eru kapparnir Arnar Már og Atli sem eru starfsmenn markaðs- og söludeildar Bláa Lónsins.