Íslandsmót ÍF í frjálsum: Metið fellur í sumar



Þann 9. júní næstkomandi fer Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í frjálsum íþróttum utanhúss fram á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði. Ólympíumótsfarinn Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir verður á meðal keppenda en hún er komin á fullt á nýjan leik eftir að hafa jafnað sig á támeiðslum.

„Nú eru prófin búin og ég hef verið meidd í einni tánni, ég lét laga hana í seinustu viku svo ég er komin aftur á fullt,“ sagði Matthildur og verður þá Íslandsmetið hennar í langstökki í flokki F37 í hættu í Hafnarfirði?

„Mér finnst meiri líkur á því að ég bæti mig í 100m hlaupinu heldur en langstökki en ég vona að ég nái þessu á mótinu núna í júní, annars í síðasta lagi áður en þetta sumar er á enda,“ sagði Matthildur.

Keppnin hefst kl. 11:00 á Kaplakrikavelli og upphitun kl. 10:00. Skráningargögn hafa þegar verið send til aðildarfélaga ÍF og eru lokaskil skráninga þann 3. júní næstkomandi.

Mynd/ Jón Björn: Matthildur í langstökkskeppninni á Ólympíumótinu í London síðasta sumar.