
Með samningnum sem gerður er við Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) að upphæð alls 15 milljóna króna verður Samherji einn af aðalstyrktaraðilum Special Olympics á Íslandi fram yfir alþjóðaleika samtakanna í Los Angeles árið 2015. Styrkupphæðin nemur fimm milljónum króna á ári eða samtals fimmtán milljónum króna. Styrknum verður varið til uppbyggingar á starfsemi Special Olympics hér á landi og þátttöku í verkefnum erlendis. „Samningurinn er mjög þýðingarmikill fyrir uppbyggingu og þróun á starfi samtakanna hér á landi en án utanaðkomandi stuðnings væri ekki mögulegt að taka þátt í svo kostnaðarsömum verkefnum.
Special Olympics samtökin hafi skapað ný tækifæri fyrir íþróttafólk með þroskahömlun en markmið okkar er að allir hafi sömu möguleika til þátttöku á leikum samtakanna. Þannig hafa Íslendingar öðlast tækifæri til að taka þátt í keppni á Alþjóðaleikum Special Olympics í greinum sem áður hafa ekki verið í boði fyrir þroskahamlaða, til að mynda í fimleikum, handbolta, golfi og nú í listhlaupi á skautum.
Stjórn Íþróttasambands fatlaðra og Special Olympics á Íslandi fagna þessum samstarfssamningi og munu áfram leggja metnað í að byggja upp gott og árangursríkt samstarf við fyrirtæki sem styrkja íþróttastarf fatlaðra á Íslandi.
Nánar á heimasíðu Samherja
Nánar á mbl.is
Mynd/ mbl.is-Skapti