Norrænt barna- og unglingamót í Danmörku 28. júlí-3. ágúst


Annað hvert ár fara fram Norræn barna- og unglingamót á Norðurlöndum og þetta sumarið er komið að Danmörku að halda mótið. Dagana 28. júlí – 3. ágúst næstkomandi fer mótið fram í Oksbøl og er fyrir fötluð börn á aldrinum 12-16 ára.
 
Íþróttasamband fatlaðra mun á næstu dögum kalla eftir tilnefningum í verkefnið eins og vant er en gengið er út frá því að tilnefndir stundi íþróttir og hafi eða muni taka þátt í keppni á næstunni.
 
Norrænu barna- og unglingamótin hafa reynst góður vettvangur fyrir unga íþróttamenn til að stíga sín fyrstu skref á erlendri grundu og hefur Ísland í gegnum Íþróttasamband fatlaðra tekið þátt um árabil.
 
ÍF tekur þátt í kostnaði vegna verkefnisins en gert er ráð fyrir að þeir sem valdir verði til fararinnar standi straum að hluta ferða- og þátttökukostnaðar.
 
Nánari upplýsingar um tilnefningar og fleira verða aðgengilegar á heimasíðu ÍF og einnig sendar til aðildarfélaga ÍF á næstu dögum. Rétt eins og árið 2011 verður farið að hámarki með 15 unga íþróttamenn í verkefnið.

Mynd/ Frá Norræna barna- og unglingamótinu sem fram fór í Svíþjóð árið 2009. Sigurjón, Ingeborg og Almar sæl með sigurlaunin.

(ÍF á Facebook)