ÍF og Rúmfatalagerinn framlengja samningi sínum


Íþróttasamband fatlaðra og Rúmfatalagerinn á Íslandi hafa framlengt samstarfs- og styrktarsamningi sínum til næstu tveggja ára. Rúmfatalagerinn verður því áfram einn stærsti og helsti styrktaraðili sambandins.
 
Samvinna ÍF og Rúmfatalagersins hefur nú staðið um árabil en sala af plastpokum í Rúmfatalagernum rennur beint til styrktar ÍF. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF var að vonum ánægður með áframhaldandi samstarf við eitt af stærri fyrirtækjum landsins. ,,Rúmfatalagerinn hefur styrkt starf sambandsins ríkulega síðastliðin ár og það er afar ánægjulegt að þeir ætli sér að standa áfram við bakið á okkar góða starfi. Allar götur síðan Ólympíumótið í London höfum við fundið fyrir umtalsverðum áhuga á íþróttum fatlaðra en þar sáu landsmenn í fyrsta sinn í beinum sjónvarpsútsendingum frá afrekum fatlaðra á heimsmælikvarða."
 
Rúmfatalagerinn hefur verið starfandi á Íslandi frá árinu 1987 en í dag eru verslanirnar samtals fimm og hefur fyrirtækið jafnan verið leiðandi á íslenska lágvöruverðsmarkaðnum. ÍF hefur ekki farið varhluta af velgengni fyrirtækisins sem hefur gert sambandinu og iðkendum þess kleift að ná sínum eigin hámarksárangri.
 
Mynd/ Magnús Kjartan Sigurðsson framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF við endurnýjun samningsins.