Ef ég hef trú á því þá get ég það


Í kvöld kl. 20:00 mun RÚV sýna heimildarmynd eftir Kolbein Tuma Daðason sem heitir ,,Ef ég hef trú á því þá get ég það." Í myndinni er fylgst með sundkappanum Jóni Margeiri Sverrissyni í aðdraganda Ólympíumótsins í London síðastliðið sumar. Á mótinu vann Jón eins og kunnugt er til gullverðlauna og setti einnig heims- og Ólympíumet.

Myndin er lokaverkefni Kolbeins Tuma í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Tökur hófust í maí 2012 eða rúmum þremur mánuðum áður en Jón Margeir nældi í gullið eftirminnilega. Jón Margeir ætlar sér að keppa bæði á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra í Ríó árið 2016. Hann stefnir á þátttöku í 1500 metra skriðsundi en titill myndarinnar er vísun í svar hans hvort hann eigi möguleika á því.

„Maður fær eðlilega minnimáttarkennd við að fylgjast náið með jafnflottum íþróttamanni og Jóni Margeiri. Auk þess að vera frábær sundmaður er hann ótrúlega lúnkinn í fótbolta og ofurhugi þegar kemur að hjólreiðum," segir Kolbeinn Tumi.
„Ég hef horft á úrslitasundið í London svo oft að ég kann lýsingu Adolfs Inga utan að. Ég fæ samt alltaf gæsahúð og kökk í hálsinn þegar okkar maður kemur í mark," segir Kolbeinn Tumi.

Þar sem myndin er lokaverkefni Kolbeins Tuma þá vatt hann sér sjálfur í hin ýmsu gervi ef svo má að orði komast. Kolbeinn Tumi var bæði tökumaður, klippari og handritshöfundur og hvetur ÍF sem flesta til að stilla á RÚV kl. 20:00 í kvöld.

Mynd/ Eva Björk: Jón Margeir með Ólympíumótsgullið við mótttökuathöfn sem fram fór í Laugardal síðastliðinn september.