Jón Margeir er íþróttamaður ársins hjá Sport.is


Tvítugi sundkappinn, Jón Margeir Sverrisson, er íþróttamaður ársins árið 2012 í vali Sport.is. Jón fékk fullt hús stiga í atkvæðagreiðslunni þó svo að nokkrir aðrir, eins og Alfreð Finnbogason, Aron Pálmarsson, Annie Mist Þórisdóttir og Gylfi Sigurðsson hefðu komið til greina. Jón er vel að verðlaununum kominn en stærsti árangur hans á árinu kom á Ólympíumóti fatlaðra í London í haust.

Jón Margeir náði þeim frábæra árangri á árinu sem er að líða að vinna til gullverðlauna á Ólympíumóti fatlaðra í London í sumar. Jón keppir í flokki S 14 og vann hann 200 metra skriðsundið á nýju heimsmeti (1.59,62 mínútu). Það sund tryggði honum gullverðlaunin.  Jón keppir fyrir hönd Fjölnis hérna heima á Íslandi.

Á Gullmóti KR í febrúar setti Jón heimsmet í 1500m skriðsundi og annað heimsmet leit dagsins ljós á Opna þýska meistaramótinu mánaðarmótin júní-júlí þegar Jón synti 800m skriðsund á 9,00,03 mín. Íslandsmet Jóns árið 2012 eru 8 talsins og er hann margfaldur Íslandsmeistari.

Jón Margeir er tólfti fatlaði sundmaðurinn til þess að vinna til gullverðlauna fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum en síðasta gullið kom árið 2004 þegar að Kristín Rós Hákonardóttir vann til gullverðlauna í Sydney.

Á dögunum var Jón Margeir, ásamt Matthildi Ylfu, valin íþróttafólk ársins af íþróttasambandi fatlaðra.

Meðfylgjandi er mynd af Jóni Margeiri með eignargripinn sem hann fékk frá Sport.is

Viðtal við Jón Margeir á Sport.is

www.sport.is