Skemmtilegur ratleikur á útivistardegi ÍF og Össurar


Á dögunum fór fram Útivistardagur ÍF og Össuarar í Laugardal en dagurinn er liður í Æskubúðum ÍF og Össurar. Nokkrir kátir krakkar komu í Laugardalinn og reyndu fyrir sér skemmtilegum ratleik sem m.a. teygði anga sína inn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

Æskubúðir ÍF og Össurar miða að því að kynna íþróttir og útivistir fyrir öll fötluð börn á grunnskólaaldri.

Árlega eru tvö verkefni, eitt á haustönn og annað á vorönn. Haustannarverkefnið í ár var Útivistardagurinn og tókst hann ljómandi vel. ÍF vill koma á framfæri innilegu þakklæti til Össurar sem og forsvarsmönnum og starfsmönnum Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.

Össur kom færandi hendi á útivistardeginum og að ratleik loknum gátu krakkarnir gætt sér á heitu súkkulaði og kleinum. Þá voru þau sem mættu einnig leyst út með góðum gjöfum frá Össuri.

Næst á dagskrá, á vorönn 2013, verður frjálsíþróttadagur. Nánari dagsetning á verkefnið verður auglýst síðar en þetta er eitthvað sem ekkert fatlað barn á grunnskóla aldri ætti að láta framhjá sér fara.

Mynd/ Frá útivistardegi ÍF og Össurar 2012 í Laugardal. Kátir krakkar gæddu sér á heitu súkkulaði og kleinum eftir að hafa staðið sig með mikilli prýði í ratleiknum.