Útivistardagur ÍF og Össurar


Föstudaginn 26. október næstkomandi munu Íþróttasamband fatlaðra og Össur standa saman að Útivistardegi í Laugardal. Verkefnið er liður í Æskubúðum ÍF og Össurar en um er að ræða íþróttakynningar fyrir fötluð börn og ungmenni á grunnskólaaldri.

Heims- og Ólympíumeistarinn í 200m skriðsundi, Jón Margeir Sverrisson, mun líta við og sýna gestum gullverðlaun sín frá Ólympíumóti fatlaðra sem fram fór í London.

Útivistardagurinn fer fram í Laugardal í Reykjavík á milli kl. 16:30 og 18 þann 26. október. Farið verður í skemmtilega útileiki með aðstoð nemenda á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ratleikur og margt annað skemmtilegt verður á boðstólunum á Útivistardeginum sem síðan lýkur með heitu kakói í boði Össurar.

Öll börn á grunnskólaaldri með fötlun eru velkomin ásamt foreldrum/forráðamönnum sínum.

Mæting er kl. 16:30 við innganginn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Laugardal.

Áhugasamir geta haft samband við skrifstofu Íþróttasambands fatlaðra í síma 514 4080 eða á if@isisport.is fyrir nánari upplýsingar um verkefnið.

Æskubúðir ÍF og Össurar

Æskubúðir ÍF og Össurar eru mikilvægur liður í að kynna íþróttir fyrir fötluðum börnum og ungmennum. Þegar hafa farið fram frjálsíþróttadagur, boltadagur og sunddagur og nú er komið að Útivistardeginum.

Íþróttasamband fatlaðra og aðildarfélög þess hafa upp á ýmislegt að bjóða með tilliti til íþróttaiðkunar fatlaðra ungmenna. Æskubúðirnar eru hugsaðar sem kynning á starfi sambandsins og aðildarfélaganna þar sem börn og foreldrar/forráðamenn þeirra geta fræðst um íþróttastarf fatlaðra fengið réttu svörin við þeim spurningum sem þau kunna að hafa.

Kjörorð sambandsins eru einföld en eiga ávallt vel við: Stærsti sigurinn er að vera með!