Síðasti keppnisdagurinn í sundi


Í dag er síðasti keppnisdagurinn í sundi en þá verða þau Kolbrún Alda Stefánsdóttir og Jón Margeir Sverrisson á ferðinni þegar keppt verður í 100m bringusundi í flokki S14, flokki þroskahamlaðra.

Jón ríður á vaðið kl. 10:24 að breskum tíma eða kl. 09:24 að íslenskum tíma. Jón syndir í öðrum undanriðli á braut 7. Jón er skráður inn í sundið á tímanum 1:13,92 mín. en heimsmetið í greininni er 1:09,11 mín. Þarna hittir Jón fyrir nokkra sterka sundmenn sem m.a. voru með honum í úrslitasundi 200m skriðsundsins þar sem Jón með sögulegri frammistöðu setti heimsmet, ólympíumótsmet, nýtt og glæsilegt Íslandsmet og já… hirti gullið!

Strax á eftir karlasundinu er komið að konunum eða kl. 10:32 (09:32 ísl. tími) og syndir Kolbrún Alda í þriðja undanriðli á braut 7 rétt eins og Jón Margeir. Heimsmetið í greininni er 1:17,42 mín. Besta tímann í bringusundinu á Spánverjinn Michelle Alonso Morales en hún syndir á fjórðu braut í undanriðlinum hennar Kolbrúnar. Sigrún Huld Hrafnsdóttir á Íslandsmetið í greininni sem staðið hefur frá árinu 1996, er það í hættu?

Mynd/ Kolbrún Alda frá SH/Firði er skráð inn á mótið á tímanum 1:30,07 mín. en Íslandsmetið í greininni á Sigrún Huld Hrafnsdóttir sem er 1:28,75 mín. og hefur staðið óhaggað síðan árið 1996 frá keppni í Hollandi. Verður metið í hættu í dag?