Helgi fjarri sínu besta og komst ekki í úrslit


Helgi Sveinsson komst ekki í úrslit í langstökki F42/44 í kvöld á Ólympíumóti fatlaðra. Helgi var nokkuð fjarri sínu besta og hafnaði í tíunda og síðasta sæti. Lengsta stökk Helga í kvöld var 4,25 metrar en Íslandsmetið hans er 5,32 metrar.

Markus Rehm frá Þýskalandi vann á nýju heimsmeti sem er 7,35 metrar en hann keppir í flokki 44. Landi hans, Wojtek Czyz, varð í 2. sæti með 6,33 metra stökki og Daninn Daniel Jörgensen var í skýjunum eftir að hafa náð 3. sæti með 6,11 metra stökki.

Mynd/ Frá langstökkskeppninni á Ólympíumótsleikvanginum í kvöld.